19.8.2018 11:12

Corbyn í vanda vegna Ísraelsóvildar

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, var í Túnis í október 2014 og tók þátt í minngarathöfn á vegum Palestínumanna.

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, var í Túnis í október 2014 og tók þátt í minngarathöfn á vegum Palestínumanna. Var sagt að athöfnin hefði verið til að minnast þeirra sem fórust í loftárás Ísraela á Palestínumenn í Túnis árið 1985 auk fleiri frammámanna úr röðum Palestínumanna, þar á meðal félaga í Svarta september. Fyrstu myndir sem sýndu þátttöku Corbyns í athöfninni birtust þegar hann var kjörinn flokksleiðtogi árið 2015. Þá neitaði Corbyn að hann hefði lagt krans til minningar um félaga í Svarta september. Breska blaðið The Daily Mail lét málið ekki liggja heldur rannsökuðu blaðamenn þess það frekar og hafa nú leitt í ljós að Corbyn var ekki aðeins við minningarmerki vegna fórnarlambanna frá 1985 með krans í fanginu heldur er það einnig til minningar um félaga í Svarta september. Jeremy Corbyn sagði sjálfur 13. ágúst: „Ég var viðstaddur minningarathöfnina, ég held ég hafi ekki beint tekið þátt í henni [það er lagt krans við minningarmerkið].“

_102958618_cdc2bfd7-e666-45b2-916a-55b62e7a2d77Myndin sem sýnir Jeremy Corbyn með kransinn við minningarmerkið í Túnis.

Breski blaðamaðurinn Brendan O‘Neill, ritstjóri vefsíðunnar Spiked, fjallar um þetta á vefsíðunni þriðjudaginn 14. ágúst ( sjá hér ) og setur í samhengi við breytingar á viðhorfi vinstri flokka í Evrópu til Ísraels á áttunda og níunda áratugnum. Félagar í Svörtum september rændu 11 liðsmönnum Ísraels á olympíuleikunum í München árið 1972, limlestu þá og pyntuðu áður en þeir skutu þá eða sprengdu í loft upp.

O‘Neill segir að ummæli Corbyns um að hann hafi verið viðstaddur en ekki þátttakandi sýni að andúðin á gyðingum sé núna ekki reist á öðru en því sjónarmiði róttækra vinstrisinna að þeir séu góða fólkið á móti illmennunum. Auðvelt sé að skilgreina illmennin, það séu Ísraelar og Ísrael, viðbjóðslegasta ríki heims að þeirra mati.

Brendan O‘Neill segir blóðbaðið í München ekki aðeins hafa haft sálræn áhrif í Ísrael heldur einnig sýnt að samúð vinstrisinna á Vesturlöndum með Ísraelum var á undanhaldi og þeir hölluðust æ meira að því sjónarmiði að til Ísraels mætti rekja upptök óstöðugleika og spillingar í heiminum.

Umræðurnar um gyðingaandúðina innan breska Verkamannaflokksins eiga erindi hér á landi til skilningsauka á því hvernig vinstrisinnar á Íslandi hafa breytt afstöðu sinni til Ísraels í áranna rás.