10.7.2017 9:47

Brotalöm í borgarstjórn

Þetta alvarlega atvik hefur leitt í ljós brotalöm innan borgarkerfisins þar sem boðleiðir er í molum og smákóngaveldi hefur tekið við af eðlilegri stjórnsýslu. 

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna, varð fyrstur borgarfulltrúa til að ræða við fréttamann sjónvarpsins eftir að sjónvarpið hafði birt fréttina um að 750 lítrar af skolpi streymdu á hverri sekúndu í sjóinn fram hjá hreinsikerfi borgarinnar. Frétt sjónvarpsins varð til þess að Kjartan áttaði sig á málinu og hún varð einnig til þess að borgarritari, formaður borgarráðs og sjálfur borgarstjórinn áttaði sig á málinu.

Síðan hefur komið í ljós að það var markviss ákvörðun þeirra sem bera ábyrgð á þessum rekstri á vegum Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar að þegja um málið. Það átti ekkert að skýra almenningi frá þessari mengun þótt hún ykist sólarhringum saman og þrátt fyrir skýr lagaákvæði um tilkynningarskylduna.

Eins og hér hefur verið sagt ber Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lokaábyrgð í þessu máli bæði sem embættismaður og kjörinn fulltrúi borgarbúa. Hann er auk þess formaður hafnarstjórnar sem eykur enn ábyrgð hans á öllu er varðar ástand mála í Faxaflóa.

Hvað gerir borgarstjóri? Hann reynir að skella skuldinni á Kjartan Magnússon! Hann hafi verið eini borgarfulltrúinn sem „vissi af þessu“. Þessa rangfærslu borgarstjóra notuðu síðan stuðningsmenn Dags B. til að bera blak af honum á Facebook og annars staðar.

Þetta alvarlega atvik hefur leitt í ljós brotalöm innan borgarkerfisins þar sem boðleiðir er í molum og smákóngaveldi hefur tekið við af eðlilegri stjórnsýslu. 

Borgarstjóri tekur ekki að sér að flytja önnur tíðindi en hann telur sér til framdráttar. Gerist eitthvað á annan veg er leitað að sökudólgi. Oft er það ríkið í þessu tilviki Kjartan Magnússon borgarfulltrúi.

Skorað hefur verið á undirfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, Veitur, að hreinsa eftir sig í fjörunum. Nú kemur í ljós hvort við þeirri áskorun verður brugðist. Það þarf hins vegar einnig að hreinsa til í kringum borgarstjórann. Eftir að Jón Gnarr sat í embættinu til að gera ekki neitt nema það sem honum þótti skemmtilegt hefur engin breyting orðið með Degi B.