5.9.2018 9:45

Borgarstjóri og blómapotturinn

Borgarstjóri vék ekki að eineltismáli í ráðhúsinu heldur að mynd af borgarsstarfsmanni að vökva blómapott í rigningu.

Langur fundur var i borgarstjórn Reykjavíkur í gær (4. september), fyrsti fundur eftir sumarleyfi. Að loknum borgarstjórnarkosningum í vor hafa birst frásagnir af fimm málum þar sem dómari, kærunefnd jafnréttismála, umboðsmaður alþingis og umboðsmaður borgara komast að þeirri niðurstöðu að illa hafi verið staðið að stjórnsýslu á vettvangi borgaryfirvalda.

Fyrir fundinn lá fyrir að lögmaður fjármálastjóra ráðhússins hefur formlega óskað eftir því við mannauðsstjóra skóla- og frístundasviðs borgarinnar að Reykjavíkurborg felli niður stjórnsýslumál vegna eineltis gagnvart fjármálastjóranum. Fram kemur það álit að umræddur starfsmaður geti ekki verið aðili að málinu þar sem hann hafi aldrei lagt fram neinar kvartanir um að hann hafi verið lagður í einelti. Engar forsendur séu fyrir rannsókninni. Upptök þessa máls eru hjá skrifstofustjóra borgarstjóra.

Þarna er sem sagt um það að ræða að einn af embættismönnum borgarstjóra telur sig sæta einelti þótt hann hafi unnið mál gegn Reykjavíkurborg vegna ólöglegrar framkomu skrifstofustjóra borgarstjóra í sinn garð.  Nú hefði mátt ætla að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skýrði málstað sinn vegna þessa undarlega máls fyrir borgarstjórn. Ekki má sjá fréttir um það en á mbl.is birtist þriðjudaginn 4. september frásögn af ræðu sem Dagur B. flutti til að mótmæla því að „Eyþór Laxdal Arnalds borgarfulltrúi og borgarfulltrúi Vigdís Hauksdóttir, birtu mynd af almennum verkamanni hjá Reykjavíkurborg sem var að gróðursetja plöntu. Hann var að gróðursetja plöntu í nýjum potti úti við tollhúsið og hann var að gróðursetja hana í rigningu. Þeim var skemmt af því hann var að vökva plöntuna.“

1070474Þessi mynd fór um Facebook i sumar. Borgarstjóri taldi hneyksli að tveir borgarfulltrúar skyldu birta hana á FB-síðum sínum,

Þessi skemmtilega mynd fór víða um netheima um sumar. Að borgarstjóri sem stendur að stjórnsýslu á borð við þá að fjármálastjóri ráðhússins kvartar formlega undan einelti á vinnustað sínum, sem jafnframt er vinnustaður borgarstjórans, skuli átelja borgarfulltrúa fyrir að vega að borgarstarfsmanni með því að birta ofangreinda mynd er aðeins enn eitt dæmið um afneitunina sem ríkir hjá meirihluta borgarstjórnar.

Borgarstjóri sagði:

 „Mér finnst þetta algjörlega fyrir neðan allar hellur [að birta myndina]. Ekki vegna þess að þetta lýsir skorti á innsýn í garðyrkjustörf af þeirra hálfu, heldur lýsir þetta viðhorfi til almenns starfsfólks, verkafólks sem er að vinna hjá okkur, sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér í opinberri umræðu. Ég ætla bara að biðja um að þetta verði í síðasta sinn sem þetta er gert og óska eftir því að oddvitar beini frekar spjótum sínum að mér eða öðrum kjörnum fulltrúum en ekki almennu starfsfólki, takk fyrir.“

Þetta segir sá sem ber ábyrgð á stjórnsýslunni í ráðhúsinu og öllu sem þar hefur farið úrskeiðis. Þegar spjótum er beint að honum snýr hann þeim jafnan annað eins og til forsætisnefndar borgarstjórnar sem hefur ekkert með starfsmannamál að gera. Borgarstjóri bjargar sér ekki undan ábyrgð sinni með því að ræða um mynd af manni sem vökvar blómapott í rigningu.

ps. Eftir að þetta hafði verið sett inn á síðuna birtist á visir.is frásögn af borgarstjórnarfundinum þar sem sagði í upphafi:

„Ekki stendur yfir rannsókn um einelti af hálfu skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara á hendur fjármálastjóra Ráðhúss Reykjavíkur. Þetta upplýsti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á fundi borgarstjórnar í gær.“

Þá segir einnig:

„Dagur B. Eggertsson sagði að um væri að ræða viðkvæmt starfsmannamál en því yrði að halda til haga að beiðni um athugun á því hvort um einelti væri að ræða kom frá yfirmanni fjármálastjórans. Sú beiðni hafi komið fram í kjölfar athugasemda sem fjármálastjórinn lét falla í vitnaleiðslum í málinu áður en dómurinn féll.


Dagur sagði fjármálastjórann líta svo á að hann hefði aldrei lagt fram eineltiskvörtun, hann hafi aldrei haldið því fram að um einelti væri að ræða og vill þess vegna ekki málið sé kannað sem einelti.

Sagðist borgarstjóri geta tekið undir með Vigdísi [Hauksdóttur] að þeim þætti málsins ætti þar með að ljúka og það hafi reyndar verið upplýsti í borgarráði. Hann sagði að samkvæmt ferlum þurfi að ljúka þessu máli og þá megi segja að markmiðinu hafi verið náð, það er að hreinsa skrifstofustjórann af ásökunum um að einelti væri að ræða.“