12.9.2017 12:22

Borgaralegur sigur í Noregi

Þessi skipti annars staðar á Norðurlöndunum milli þeirra sem kallast bláa og rauða blokkin er óþekkt hér. Farsælar stjórnir Sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna hafa setið.

Hægri, Framfaraflokkurinn (Frp), Kristilegi þjóðarflokkurinn (KrF) og Venstre, norsku borgaraflokkarnir, fengu 89 þingmenn í kosningunum til stórþingsins mánudaginn 11. september. Þeir þurftu 85 þingmenn til að halda meirihluta sínum og tókst það. Þetta var sögulegur sigur og Verkamannaflokkurinn fékk verstu útreið sína í 90 ár.

Erna Solberg, formaður Hægri, situr áfram sem forætisráðherra í stjórn með Frp. Spurning er hvað forystumenn KrF. og Venstre gera. Þeir hafa andúð á samstarfi við Frp. og vilja sýna hana í viðræðum um nýja stjórn en hvort sem þeir eignast ráðherra í henni eða ekki styðja þeir borgaralega stjórn áfram í Noregi.

Þessi skipti annars staðar á Norðurlöndunum milli þeirra sem kallast bláa og rauða blokkin er óþekkt hér. Farsælar stjórnir Sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna hafa setið. Framsóknarmenn eru á girðingunni en halla sér til vinstri eða hægri eftir því sem vindurinn blæs. Hér hafa skilin verið á milli Sjálfstæðismanna annars vegar og sósíalista eða kommúnista hins vegar frá því að nýsköpunarstjórnin leið undir lok snemma árs 1947 – það er fyrir 70 árum. Það kom til dæmis í ljós í byrjun þessa árs að sósíalistarnir innan VG vildu ekki stofna til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn.

Senterpartiet (SP), Miðflokkurinn, systurflokkur Framsóknarflokksins, vart sigurvegari norsku þingkosninganna þegar litið er til atkvæðaaukningar. Hann jók fylgi sitt um 4,8 stig og fékk 10,3%. Hann er í rauðu blokkinni þótt hann njóti mikils stuðnings bænda sem vilja frekar halla sér að borgaralegum sjónarmiðum en sósíalískum.

SP vann mjög mikið á og hlaut góða kosningu í Nordland-fylki sem er fyrir sunnan Troms-fylki – Lófóten er hluti af Nordland og meðal annars Andøy þar sem var herflugvöllur m.a. fyrir kafbátaleitarvélar. Honum hefur verið lokað þvert á vilja íbúanna. Þarna fékk SP 72,1% fylgi og bætti stöðu sína um 63,7 stig vegna andstöðu sinnar við lokun flug- og flotastöðvarinnar. Þarna eru greinilega ekki öflug Samtök herstöðvaandstæðinga,

Eftir tap Verkamannaflokksins beinast öll spjót að flokksformanninum Jonas Gahr Støre. Sagt er að hann hafi háð ömurlega kosningabaráttu. Einn stjórnmálaskýrandi orðaði þetta þannig: „Verkamannaflokknum tókst það: Hann tapaði kosningu sem átti að vera ómögulegt að vinna ekki.“

Flokkurinn tapar mestu fylgi í dreifðum byggðum Noregs og sagt er að hollusta hans við gamalgróna kjósendur hafi brostið. Þá er sagt að flokkurinn hafi dregið upp alranga mynd af ástandinu í Noregi með því að láta eins og efnahags- og atvinnuástandið væri mun verra en kjósendur skynjuðu. Einnig er vakið máls á því að í þetta skipti hafi Verkamannaflokkurinn í fyrsta skipti í 20 ár boðið annað forsætisráðherraefni en Jens Stoltenberg. Jonas Gahr Støre takist ekki að ávinna sér sömu vinsældir og hann naut innan flokksins.

Samhliða því sem Erna Solberg vinnur að myndun nýrrar stjórnar borgaraflokkanna verður Jonas Gahr Støre í sviðsljósinu vegna spurninga um framtíð hans í norskum stjórnmálum. Hann segist ekki ætla að víkja.