23.5.2018 10:15

Blekkingar og aðgengi fyrir alla

Hér hefur oftar en einu sinni verið vakið máls á því hve léttilega Dagur B. Eggertsson og meirihluti hans sleppur í umræðunum fyrir kosningar.

Vigdís Hauksdóttir, efsti maður á lista Miðflokksins í borgarstjórnarkosningunum, skrifar grein í Morgunblaðið í dag (23. maí) undir fyrirsögninni Blekkingar borgarstjóra. Þar nefnir hún 11. atriði til stuðnings fullyrðingunni sem í fyrirsögninni felast. Hér eru þrjú fyrstu:

„1. „Staðfest áform„ um íbúðabyggingu skila sér í fullgerðum íbúðum á næstu árum.

Raunveruleikinn: Rangt. Það hafa aldrei verið jafn fáar íbúðir byggðar á neinu 8 ára tímabili í Reykjavík frá árinu 1929 eins og síðustu tvö kjörtímabil undir stjórn Dags B. Eggertssonar. Þrátt fyrir öll staðfestu áformin.

Miðflokkurinn hefur gert þetta línurit sem afsannar betur en allt annað rangfærslur Dags B. og félaga um stórhuga stefnu þeirra í húsnæðismálum.

2. Samfylkingin ætlar að bæta við leikskólaplássum með því að byggja nýja leikskóla.

Raunveruleikinn: Það vantar í hið minnsta 100 leikskólakennara og það hefur þurft að loka heilu deildunum á leikskólum á undanförnum árum. Þetta er ekki nýtt vandamál og borgarstjórnarmeirihlutinn hefur ekkert gert til að bæta kjör starfsfólks leikskóla.

3. Íbúðauppbygging á þéttingarreitum skilar sér fljótlega í þéttari borg.

Raunveruleikinn: Íbúum í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur hefur fjölgað um þúsundir umfram Reykjavík á ári hverju um nokkurt skeið. Þétting á afmörkuðu svæði vestan Kringlumýrarbrautar mun ekki vinna gegn þessari þróun. Þvert í móti hefur íbúðaskortur í Reykjavík ýtt íbúum enn hraðar út í nágrannasveitarfélögin og jafnvel lengra út, t.d. á Reykjanes, Suðurland og Akranes.“

Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Einar S. Hálfdánarson, lögfræðing og endurskoðanda, þar sem segir frá því að samþykkt hafi verið að falla frá kröfum laga um „aðgengi fyrir alla“ að verslun sem borgaryfirvöld heimiluðu þegar íbúðarhúsnæði í kjallara að Óðinsgötu 8b var breytt „í smávöruverslun með matvæli“ og útbúinn nýr inngangur á vesturgafl hússins. Einar segir:

„Eigandi og íbúi í húsinu Óðinsgötu 8B með undanþágunni á kröfum um „aðgengi fyrir alla“ er Dagur B. Eggertsson læknir, alnafni borgarstjórans í Reykjavík. Spurningin er þessi: Um hvað snýst undanþágan eiginlega?“

Skyldi spurningunni verða svarað fyrir kosningar?