3.5.2017 16:29

Bankar og fjármálaáætlun til umræðu á ÍNN

Í þætti mínum á ÍNN í kvöld ræði ég við Ásgeir Brynjar Torfason, lektor í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Við ræðum um bankamál og fjárlagaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Í þætti mínum á ÍNN í kvöld ræði ég við Ásgeir Brynjar Torfason, lektor í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Við ræðum um bankamál og einnig um fjármálaráð þar sem Ásgeir á sæti.

Fjármálaráð situr í samræmi við lög um opinber fjármál sem tóku gildi 1. janúar 2016 og var ráðið skipað í fyrsta sinn í júní 2016. Hlutverk þess er að segja álit á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og fjármálaáætlunina 2018 til 2011 sem nú er til umræðu á alþingi.

Samkvæmt lögum skal stefnumörkun í opinberum fjármálum byggja á fimm grunngildum, að viðbættum fjármálareglum um afkomu og skuldir hins opinbera. Einnig skal fjármálaáætlun vera byggð á fjármálastefnu.

Grunngildin eru sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi.

Í inngangi fjármálaráðs að áliti sínu á fjármálaáætltunni segir:

„Hlutverk fjármálaráðs felst í að leggja mat á hvort stefnumörkun stjórnvalda byggi á grunngildunum fimm og hvort sett markmið samræmist tölulegum skilyrðum eins og þau birtast í ofangreindum fjármálareglum.

Stefnumörkun stjórnvalda sem fjármálaráði er gert að veita álit sitt á eru annars vegar fjármálastefna og hins vegar fjármálaáætlun hvers árs.

Sú álitsgerð sem hér birtist er sú fyrsta sem fjármálaráð sendir frá sér um fjármálaáætlun. Þann 9. febrúar 2017 skilaði fjármálaráð fyrsta áliti sínu á fjármálastefnu. Hér er því um annað álit ráðsins að ræða.”

Fyrir utan að ræða um bankamál segir Ásgeir frá störfum fjármálaráðs  í samtali okkar.

Það vekur undrun hve mikill hiti hefur hlaupið í umræður um fjármálaáætlunina. Mætti stundum ætla að hún boðaði eitthvað sem ætti að koma til framkvæmda á morgun sem er auðvitað ekki – ekkert sem í áætluninni segir verður framkvæmt nema alþingi samþykki það með fjárlögum.

Athygli hefur sérstaklega beinst að ferðaþjónustunni og hafa talsmenn hennar meðal annars kvartað undan skorti á samráði vegna breytinga á virðisaukaskatti sem gert er ráð fyrir í áætluninni. Þetta er einkennileg gagnrýni þar sem áætlunin er í raun samráðsskjal sem lagt er fram til umræðu og umsagnar meðal annars hjá fjármálaráði og öllum sem vilja koma skoðunum sínum á framfæri.

Umræðurnar um fjármálaáætlunina verða vonandi ekki til þess að grafa undan þessari nýskipan og nýju umgjörð um opinber fjármál. Þau eru liður í nýjum vinnubrögðum sem kalla alla til meiri ábyrgðar en áður við gerð fjárlaga. Aðferðin er til þess fallin að dreifa valdi sem áður hefur verið í höndum fjármálaráðuneytisins og lýðræðisvæða fjárlagagerðina.

Með þetta í huga er einkennilegt hve þeir sem eiga mikið undir að koma sjónarmiðum sínum á framfæri kjósi að grípa til fordæmingar, skamma og hótana í stað þess að leggja fram vel rökstudda skoðun með hliðsjón af rammanum sem mótaður er af lögunum um opinber fjármál.

Samtal mitt við Ásgeir Brynjar verður frumsýnt á rás 20 kl. 20.00 í kvöld.