15.5.2018 18:47

Auðmannaíbúðum fjölgar á vakt Dags B. – einnig heimilislausum

Hvað eftir annað birtast nú fréttir um íbúðir sem eiga að seljast fyrir hundruð milljóna í byggingum sem komist hafa á skipulag undir forystu vinstrimanna í Reykjavík.

IMG_3608Frá Hafnartorgi.

Hvað eftir annað birtast nú fréttir um íbúðir sem eiga að seljast fyrir hundruð milljóna í byggingum sem komist hafa á skipulag undir forystu vinstrimanna í Reykjavík á sama tíma og húsnæðiskostnaður fyrir allt venjulegt fólk, sérstaklega ungt fólk, hefur hækkað úr öllu valdi vegna skömmtunar á lóðum fyrir íbúðir á hóflegu verði.

Í Morgunblaðinu í dag (15. maí) segir að ÞG verk ætli að hefja sölu á 69 íbúðum á svonefndu Hafnartorgi í júní. Forstjóri ÞG verks segir íbúðirnar í sérflokki á Íslandi, verð einstakra íbúða fari eftir á hvað hæð þær eru í byggingunum. Dýrastar eru þakíbúðir sem kosta hundruð milljóna

Á nýjum söluvef, Hafnartorg.is, segir að meðalstærð 60 íbúða sé um 102 fermetrar. Stærð 9 þakíbúða er ekki gefin upp.

Í Morgunblaðinu segir:

„Fram hefur komið að samanlagt eru íbúðirnar um 7.900 fermetrar. Miðað við að fermetrinn kosti að meðaltali 800 þús. er söluverðmæti íbúðanna alls 6,3 milljarðar. Með hliðsjón af verði þakíbúða er þetta hóflegt mat. Líklegra er að verðmætið sé 7-8 milljarðar. Með því er verkefnið eitt það stærsta sinnar tegundar í miðborginni.“

Fermetraverð í þakíbúðum er talið verða vel á aðra milljón. Samkvæmt því gæti 440 fermetra þakíbúð kostað rúmar 400 milljónir kr.

Samfylkingarmennirnir Dagur B. Eggertsson og Hjálmar Sveinsson líta á það sem rós í hnappagat sitt að hafa staðið að skipulagi í hjarta elsta hluta Reykjavíkur sem gerir verktökum kleift að reisa þar hús með íbúðum sem þeir geta verðlagt á þennan hátt.

Kannanir gefa til kynna að flestir meðal hæst launuðu íbúa Reykjavíkur styðji Samfylkinguna. Flokkurinn hefur sagt skilið við almenna borgara Reykjavíkur og snýr sér að sérhagsmunahópum við skipulag hvort heldur um er að ræða lúxusíbúðir eða íbúðir sem eru reistar í þágu samtaka sem eru milliliður verktaka gagnvart sérgreindum hópum.

Daginn áður en fréttin um auðmannaíbúðirnar birtist í Morgunblaðinu var þar grein eftir Börk Gunnarsson, varaborgarfulltrúa D-listans, um að vandi utangarðs og/eða heimilislausra hefði vaxið gríðarlega á síðustu árum. Langflestir þeirra væru í Reykjavík. Það hefði verið gerð kortlagning á vandamálinu 2012 og aftur 2017. Meginniðurstöður kortlagningarinnar árið 2017 væru að fjölgað hefði í hópi þeirra sem teljast utangarðs og/eða heimilislausir. Fjölgunin á milli 2009 og 2012 var 45%. Fjölgunin á milli 2012 og 2017 var 95%.

Hvert sem litið er blasir við að samfélagslegt uppbrot er í Reykjavík undir stjórn Samfylkingarinnar. Hún dregur taum fárra á kostnað margra.