16.7.2017 15:20

Átta ár frá upphafi misheppnaðra ESB-aðildarviðræðna

Tíminn frá 16. júlí 2009 til janúar 2013 er svartasti kaflinn í utanríkismálasögu íslenska lýðveldisins. Það hefur ekki enn verið gert upp við þennan kafla utanríkismálasögunni á verðugan hátt.

Í dag, 16. júlí 2017, eru átta ár frá því að alþingi samþykkti umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Við upphaf atkvæðagreiðslunnar gáfu forystumenn stjórnarflokkanna, Samfylkingarinnar yfirlýsingar. Þær birtast hér í heild.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, formaður Samfylkingarinnar:

„Hæstv. forseti. Við göngum nú til sögulegrar atkvæðagreiðslu. Samþykki Alþingi að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu markar það upphaf á vegferð sem leiðir vonandi til aðildarsamnings sem lagður verður í mat og dóm þjóðarinnar. Tillaga meiri hluta utanríkismálanefndar, sem við göngum til atkvæða um á eftir, er afrakstur af vinnu utanríkismálanefndar þar sem áhersla var lögð á að ná sem breiðastri samstöðu. Hún leggur þær skyldur á herðar ríkisstjórninni að tryggja meginhagsmuni Íslands í aðildarviðræðum. Það er bjargföst skoðun mín að umsókn um aðild að ESB muni greiða götuna fyrir skjótri endurreisn íslensks efnahagslífs og fela í sér skýr og traustvekjandi skilaboð til umheimsins. Sem umsóknarríki mun Ísland hafa sterkari stöðu en ella. Aðildarumsóknin felur í sér tækifæri til að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir á Íslandi, bæta hag heimila og fyrirtækja og tryggja stöðugleika og efnahagslegar framfarir sem ráðið getur úrslitum um hagsæld í íslensku samfélagi.“

 

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, formaður vinstri-grænna (VG):

„Frú forseti. Þegar tillaga þessi um aðildarumsókn að Evrópusambandinu kemur til lokaafgreiðslu vil ég árétta þá grundvallarstefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að það þjóni ekki hagsmunum Íslands að gerast aðili. Við greiðum atkvæði um það á eftir hvort rétt sé eftir sem áður að láta reyna á í viðræðum hvers konar samningi sé hægt að ná til þess að þjóðin geti að því loknu hafnað honum eða samþykkt hann komi til niðurstöðu. Þingmenn VG eru bundnir af engu nema sannfæringu sinni varðandi það hvort sú leið skuli farin. Hvor tveggja afstaðan, að vera með því eða á móti, er vel samrýmanleg stefnu flokksins. Öll eigum við það sameiginlegt, þingmenn VG, að áskilja okkur rétt til málflutnings og baráttu utan þings sem innan í samræmi við grundvallaráherslur flokksins og okkar sannfæringu. Það tekur einnig til þess að áskilja okkur rétt til þess að slíta samningaviðræðum séu þær ekki að skila fullnægjandi árangri á hvaða stigi málsins sem er sem og auðvitað að hafna óviðunandi samningsniðurstöðu.“

Í ljósi sögunnar er yfirlýsing Jóhönnu augljóslega reist á vanþekkingu eða óskhyggju. Athyglisvert er að hún telur að aðildarumsóknin ein verði til að „bæta hag heimila og fyrirtækja og tryggja stöðugleika og efnahagslegar framfarir“ og „greiða götuna fyrir skjótri endurreisn íslensks efnahagslífs“.

Allt reyndust þetta blekkingar. Það var ekki fyrr en íslensk stjórnvöld voru laus undan oki umsóknarinnar sem þjóðin komst á beinu brautina til mesta hagvaxtar í sögu sinni.

Tvískinnungurinn í málflutningi Steingríms J. er með miklum ólíkindum þegar mál af þessum toga er á döfinni. Hann segir án þess að blikna: „Hvor tveggja afstaðan, að vera með því eða á móti, er vel samrýmanleg stefnu flokksins.“ Fyrir kosningar í apríl 2009 tók Steingrímur J. af skarið um andstöðu VG við ESB-aðild.

Sjá hér .

Þarna segir orðrétt:

  • Sigmar í Kastljósi: Kemur það til greina, Steingrímur, bara svo að ég spyrji þig, kemur það til greina að hefja undirbúning að því að sækja um, strax núna eftir kosningar? ...
  • Steingrímur: Nei.
  • Sigmar:  ...vegna þess að þannig hefur Samfylkingarfólkið talað ...
  • Steingrímur: Nei.
  • Sigmar:  að þetta byrji í sumar?
  • Steingrímur: Nei.
  • Sigmar: Hvenær getur þetta byrjað? 
  • Steingrímur: Það samrýmist ekki okkar stefnu, og við hefðum ekkert umboð til slíks, og þó við reyndum að leggja það til, forystufólkið í flokknum, að það yrði farið strax í aðildarviðræður, gagnstætt okkar stefnu í maí, þá yrði það fellt í flokksráði Vinstri grænna. Þannig að slíkt er ekki í boði.

Margir kjósendur treystu á að VG stæði við þetta loforð Steingríms J. en vantreystu Sjálfstæðisflokknum í málinu.

VG-menn áskildu sér „rétt til þess að slíta samningaviðræðum séu þær ekki að skila fullnægjandi árangri á hvaða stigi málsins sem er sem og auðvitað að hafna óviðunandi samningsniðurstöðu“. Þetta birtist á þann veg að Steingrímur J. rak Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, úr embætti í árslok 2011 og tók sjálfur við ráðherraembættinu til að þoka ESB-viðræðunum áfram, þær strönduðu vorið 2011 vegna þess að ESB-skiluðu ekki rýniskýrslu um sjávarútvegsmál. Þeir vildu að Íslendingar breyttu um stefnu. Steingrímur J. fór í ársbyrjun 2012 til Brussel, bukkaði sig og beygði fyrir ESB-framkvæmdastjórum í stað þess að binda enda á viðræðurnar.

ESB-aðildarviðræðurnar runnu út í sandinn í janúar 2013 af því að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra vildi ekki hafa þær yfir höfði sér í þingkosningabaráttunni sem var að hefjast.

Tíminn frá 16. júlí 2009 til janúar 2013 er svartasti kaflinn í utanríkismálasögu íslenska lýðveldisins. Það hefur ekki enn verið gert upp við þennan kafla utanríkismálasögunni á verðugan hátt. Samfylkingin er að vísu úr sögunni sem stjórnmálaafl. VG hefur lifað af til þessa þrátt fyrir tvöfeldni og blekkingariðju. Innan stjórnkerfisins eru embættismenn enn í háum stöðum sem hafa hag af því að sagan öll sé ekki sögð í málinu.