17.8.2018 11:55

Andlitsgrettur í borgarráði - lokavörn meirihlutans

Eftir kosningarnar í vor og með komu nýs fólks í borgarstjórn hefur aðhaldið að meirihlutanum aukist. Viðbrögðin bera með sér að kjörnir fulltrúar meirihlutans hafi ekki burði til að takast á við nýja stöðu.

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur siglir ekki jafn lygnan sjó og hann hefur gert undanfarin kjörtímabil. Hér hefur oftar en einu sinni verið vakið máls á því að innan borgarstjórnar hafi ríkt klúbb-andrúmsloft. Allir væru á sama báti og honum ætti ekki að rugga. Svona andrúmsloft á opinberum vettvangi leiðir fljótt til kæruleysis við úrlausn mála.

Á tæpum tveimur mánuðum hafa birst frásagnir af fimm málum þar sem dómari, kærunefnd jafnréttismála, umboðsmaður alþingis og umboðsmaður borgara komast að þeirri niðurstöðu að illa hafi verið staðið að stjórnsýslu á vettvangi borgaryfirvalda.

Eftir kosningarnar í vor og með komu nýs fólks í borgarstjórn hefur aðhaldið að meirihlutanum aukist. Viðbrögðin bera með sér að kjörnir fulltrúar meirihlutans hafi ekki burði til að takast á við nýja stöðu. Þeir siga embættismönnum borgarinnar á minnihlutann. Þetta er fáheyrt.

Fr_20180619_089744Þessi mynd af borgarstjórn á fundi birtist á ruv.is, ljósm. Vilhjálmur Þór Guðmundsson.

Eftir fyrsta borgarstjórnarfundinn 19. júní ritaði skrifstofustjóri borgarstjórnar stórundarlegt minnisblað þar sem fundið var að ræðum borgarfulltrúa og þess krafist að þeir yrðu kærðir fyrir siðanefnd sveitarfélaga!

Á fundi borgarráðs 16. ágúst tók borgarritari einn borgarfulltrúanna til bæna fyrir að hafa lekið trúnaðarmáli af fyrra borgarráðsfundi. Gott ef ekki stendur til að kæra borgarfulltrúann fyrir siðanefnd.

Á sama tíma og þessu vindur fram er boðað á ófullnægjandi hátt til fundar í skipulags- og umhverfisráði borgarinnar þar sem 75 mál eru á dagskrá. Fulltrúar meirihlutans í ráðinu reyna að dreifa málinu á dreif með ásökunum um að krafa minnihlutans um að farið sé að réttum reglum sé til marks um fáfengileika þeirra.

Uppgjöf meirihlutans birtist síðan á fundi borgarráðs 16. ágúst þegar Líf Magneudóttir (VG), fyrrv. forseti borgarstjórnar, rekur út úr sér tunguna framan í Mörtu Guðjónsdóttur (D).

Líf segir m. a. á FB-síðu sinni um þetta framlag sitt:

„Hvað gerir maður þegar einhver starir á mann í lengri tíma af miklu yfirlæti og vanþóknun í þrúgandi og kúgandi aðstæðum eftir að maður hefur verið málefnalegur og sanngjarn í sínum málflutningi en fær ómálefnaleg viðbrögð á móti? Jú - maður reynir að slá þessu öllu upp í grín og létta andrúmsloftið og losa sig úr störukeppninni með því að ulla bara á viðkomandi, lyfta brúnum og brosa.“

Þetta staðfestir aðeins málþrot meirihlutans sem kýs að siga embættismönnum á minnihlutann af því að hann kann ekki að verjast sjálfur nema með upphrópunum og andlitsgrettum.