7.6.2017 19:15

Alþingi vildi ekki óbreytta tillögu dómnefndar um landsréttardómara

Haldið er áfram að birta furðufréttir tengdar dómurum í Landsrétti til að gera nýja réttinn örugglega eins tortryggilegan og frekast er kostur. Óljóst er hvaða tilgangi þessar fréttir þjóna.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra birti grein í sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út laugardaginn 3. júní þar sem hún skýrði frá því að könnun sín meðal þingmanna hefði leitt í ljós 15 manna listinn frá dómnefnd um dómaraefni í Landsrétt hlyti ekki samþykki á þingi. Hún hefði þess vegna ákveðið að breyta listanum. Við breytinguna jafnaði ráðherrann kynjahlutfallið.

Það er þó ekki fyrr en í dag, miðvikudaginn 7. júní, sem fréttastofa ríkisútvarpsins kveikir á þessari staðreynd og látið er eins og afstaða Viðreisnar hafi ráðið úrslitum með jafnréttiskröfu sinni þótt ráðherrann hafi farið almennari orðum um andstöðuna á þingi.

Haldið er áfram að birta furðufréttir um þetta mál til að gera skipan dómara í Landsrétt örugglega eins tortryggilega og frekast er kostur. Óljóst er hvaða tilgangi þessar fréttir þjóna eins og til dæmis frásögn af því að Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, talar eins og hann einn geti tryggt að forseti Íslands fái þau gögn sem hann þurfi til að skrifa undir tillögu frá ráðherra sem alþingi hefur samþykkt. Detti forseta Íslands í hug að láta eins og hann telji ekki hafa verið staðið rétt að málum og spurning sé hvort tillagan sem fyrir hann sé lögmæt lendir hann í ógöngum.

Jón Þór Ólafsson varð sér til skammar í ræðustól alþingis. Birgitta Jónsdóttir, flokkssystir Jóns Þórs og alvaldur í þingflokki Pírata, hlýtur að sjá til þess að flokkurinn setji annan í forsætisnefnd alþingis en Jón Þór. Að það líðist óátalið að einn af varaforsetum þingsins sitji áfram og stjórni þingfundum eftir framkomuna sem Jón Þór sýndi yrði til marks um algjöran skort á sjálfsvirðingu og aga á alþingi.

Af vangaveltum lögfræðinga í blöðum má ætla að einhver vafi leiki á afgreiðslu tillögunnar um dómaraefnin af því að hún var borin upp í heild á alþingi en ekki hvert nafn fyrir sig eins og heimilt er lögum samkvæmt.

Um atkvæðagreiðslur á alþingi gilda þingsköp. Sætti þingmenn sig við að greiða atkvæði um tillögu í heild er það gert. Hitt er einnig hægt að óska eftir atkvæðagreiðslu um einstaklinga eins og gert var þegar ákært var í landsdómsmálinu og sorgleg niðurstaða atkvæðagreiðslunnar varð þingmönnum til skammar og háðungar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem of margir tapa áttum þegar skipað er í dómaraembætti. Ástæðan fyrir því er í raun óskiljanleg nema fyrir mönnum vaki að veikja traust á dómstólunum almennt – gagnrýnendurnir hafa að minnsta kosti ekki burði til að benda á að hrakspár þeirra við fyrri skipanir í dómaraembætti hafi ræst.