8.10.2017 11:54

Allt eða ekkert í stjórnarskrármálinu

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, lýsir ekki afstöðu til efnislegra þátta í stjórnarskrármálinu eins og forveri hans Ólafur Ragnar Grímsson gerði á afdráttarlausan hátt.

 Á hátíðarmálþingi í Háskólanum í Reykjavík (HR) í hádegi föstudaginn 6. október í tilefni af afmælisriti vegna 70 ára afmælis Jóns Steinars Gunnlaugssonar lögmanns fluttu þrír ræðumenn erindi um stjórnarskrána í stormi samfélagsins. Frummælendur voru Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Arnar Þór Jónsson, lektor við lagadeild HR, og Katrín Oddsdóttir lögmaður, kennari við lagadeild HR og formaður Stjórnarskrárfélagsins. Stór kennslustofa HR var fullsetinn og heppnaðist málþingið vel.

Hér verður engin tilraun gerð til að endursegja efni erindanna. Forseti Íslands nálgaðist viðfangsefnið á svipaðan hátt og hann gerði í þingsetningarræðu sinni. Hann svaraði fyrirspurnum einnig með vísan í skrifaðan texta sinn. Lokaorð forsetans voru þessi:

„Nú þegar þess má vænta að umræðum um endurskoðun stjórnarskrárinnar verði haldið áfram vil ég halda því til haga að vel fyrir bankahrun, búsáhaldabyltingu og stjórnlagaráð heyrðust þau sjónarmið að skýra bæri betur í stjórnarskrá völd og verksvið forseta Íslands. Í öllum þessum efnum vil ég verða að liði en þingið og þjóðin eiga auðvitað að ráða gangi mála.“

Ber að skilja þessi orð forseta Íslands þannig að hann ætli að verða þátttakandi í næstu skrefum sem stigin verða í stjórnarskrármálinu? Í ræðum sínum tekur hann ekki afstöðu til einstakra tillagna heldur nefnir það sem gerst hefur til þessa og tíundar sjónarmið sem fram hafa komið. Efnislegu þættirnir skipta þó sköpum. Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti Íslands, tók afstöðu til þeirra í sögulegri ræðu við þingsetningu haustið 2011 þar sem hann sagði meðal annars um tillögur stjórnlagaráðs:

„Allt eru þetta veigamiklar breytingar, í raun nýr grundvöllur stjórnskipunar og annars konar lýðræðiskerfi en þjóðin hefur vanist, mjög frábrugðið því sem við höfum þekkt í áratugi. Eru þó ótaldar tillögur stjórnlagaráðs um forseta Íslands; tillögur sem efla umsvif forsetans á vettvangi stjórnkerfisins, færa embættinu aukna ábyrgð.“

Með ræðunni steig Ólafur Ragnar inn í tómarúm sem skapast hafði á pólitískum vettvangi um stjórnarskrármálið. Hann varpaði ljósi á tillögur sem fyrir lágu og gera ef til vill enn. Má segja að með því hafi hann drepið málið á því stigi auk þess sem hann vísaði til óvissunnar í stjórnarskrármálinu þegar hann bauð sig fram til endurkjörs árið 2012. Öllum var ljós efnisleg afstaða hans.

Það einkennir umræðurnar um stjórnarskrármálið núna að efnisþættirnir eru lítið reifaðir af þeim sem telja til dæmis komandi þingkosningar eiga að snúast um það. Athyglinni er beint að ferlinu og því sem sagt var um nauðsyn þess að Íslendingar fengju eigin stjórnarskrá á 19. öld eða strax eftir að lýðveldið var stofnað á stjórnlagagrunni sem reynst hefur þjóðinni vel síðan 1944.

Þegar um stjórnlagabreytingar er að ræða skiptir ferlið auðvitað máli en efni breytinganna ræður þó úrslitum. Aðferðin við breytingar á stjórnarskránni hafa til þessa verið að taka fyrir einstaka kafla hennar og breyta þeim að loknum víðtækum umræðum. Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins, hafnaði þeirri leið á hátíðarmálþinginu. Nú er það allt eða ekkert.