16.2.2018 14:06

Aðstoðarmaður getur valdið vanhæfi ráðherra

Sif hefur sjálf komist að þeirri niðurstöðu að Guðmundur Ingi ráðherra sé ekki vanhæfur til að taka ákvörðun um friðlýsinguna. Hvað sem líður hæfi ráðherrans er Sif örugglega vanhæf í málinu.

  

Hér hefur verið fjallað um þann vanda sem stafar af því að fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar varð umhverfisráðherra. Þetta kalli á efasemdir um hæfi hans til að afgreiða einstök mál í samræmi við kröfur stjórnsýslulaga. 

Nú hefur Umhverfisstofnun sent tillögu vegna friðunar jarðar í eigu Sifjar Konráðsdóttur, nýráðins aðstoðarmanns Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra, til ráðherrans segir í Fréttablaðinu í dag, 16. febrúar.  

Umhverfisráðherra ber að taka afstöðu til þess hvort friða skuli jörðina Hóla Í Öxnadal, sem Sif aðstoðarmaður og eiginmaður hennar, Ólafur Valsson eiga. Frá árinu 2013 hafa þau bannað að farið verði í gegnum jörðina, þar sem þau stunda skógrækt, með Blöndulínu 3, háspennulínu frá Blönduvirkjun. 

Sif hefur sjálf komist að þeirri niðurstöðu að Guðmundur Ingi ráðherra sé ekki vanhæfur til að taka ákvörðun um friðlýsinguna. Hvað sem líður hæfi ráðherrans er Sif örugglega vanhæf í málinu. Er einkennilegt að hún lýsi skoðun á því opinberlega hvaða ráð sem hún kann að gefa ráðherranum. Að hún liggur ekki á skoðun sinni veldur ráðherranum auknum vanda í málinu. Skynsamlegast er fyrir hann að segja sig frá því.  

„Þetta mál hefur ekki verið tekið fyrir eftir að ég kom inn í ráðuneytið,“ segir Guðmundur Ingi. „Ég hef ekki farið yfir það en í svona málum er hvert og eitt mál metið. Ef einhverjar líkur eru á vanhæfi eða ástæða þykir til að skoða vanhæfi þá mun stjórnsýslan fara yfir það.“ 

Í þessum orðum gætir þess misskilnings hjá ráðherranum að stjórnsýslan ákveði fyrir hann hvort hann sé vanhæfur eða ekki, það er hans sjálfs að taka af skarið um það.  Sé hann með orðinu „stjórnsýsla“ að vísa til Sifjar aðstoðarmanns er skoðun hennar marklaus vegna vanhæfis. 

Í opinberum umræðum er allt annað viðhorf til þess hvernig umhverfisráðherra stendur að stjórnvaldsákvörðunum en til dæmis dómsmálaráðherra. Nýlega var skýrt frá því að umboðsmaður alþingis ógilti á sínum tíma staðfestingu Svandísar Svavarsdóttur sem umhverfisráðherra á aðalskipulagi höfuðborgarsvæðisins vegna vanhæfis ráðherrans. Varð nokkur hvellur út af því stjórnsýslulögbroti ráðherrans?  

Nú leikur hins vegar allt á reiðiskjálfi vegna þess að hæstiréttur lítur öðrum augum á inntak matsreglu í stjórnsýslulögunum en dómsmálaráðherra. 

Hafi „stjórnsýsla“ umhverfisráðuneytisins á sínum tíma sagt Svandísi að hún væri hæf til að staðfesta skipulagið sem síðan varð ógilt ætti Guðmundur Ingi að hafa það fordæmi í huga.