22.4.2018 10:18

ACER kemur ekki í stað Orkustofnunar

Viti einhver meira um stöðu þessa máls innan EES-samstarfsins en Ólafur Jóhannes hlýtur hann að gefa sig fram.

Umræðurnar um „þriðja orkupakka“ Evrópusambandsins halda áfram og myndin skýrist meira en áður var. Nýlega var haldinn fundur um málið á vegum atvinnuveganefndar Sjálfstæðisflokksins. Þar kom fram að tengja yrði Ísland með sæstreng til Evrópu til að ACER, samstarfsstofnun evrópskra orkueftirlitsaðila, gæti seilst til einhverra áhrifa hér með afskiptum sínum.

Þegar rætt er um sæstreng héðan er jafnan miðað við að hann komi á land í Bretlandi og orkan nýtist Bretum. Varla verður ACER með puttana í Bretlandi eftir útgöngu þeirra úr ESB?

Eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins ritaði ég grein í Morgunblaðið þar sem sagði meðal annars: „Verði Ísland aðili að ACER tekur þessi ESB-stofnun að líkindum við eftirlitshlutverki Orkustofnunar t. d. með Landsneti og fær þar með lokaorð um ákvörðun flutningsgjalds raforku til almennings og stóriðju á Íslandi.“

Fullyrðingin um að ACER taki við hlutverki af Orkustofnun stenst einfaldlega ekki ef marka má það sem fram kemur í minnisblaði sem Ólafur Jóhannes Einarsson, lögmaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), tók saman að beiðni atvinnuvegaráðuneytisins og birt er á vefsíðu ráðuneytisins. Þar segir:

„Þriðji orkupakkinn haggar í engu heimildum íslenskra stjórnvalda til að banna framsal á eignarrétti að orkuauðlindum sem eru í opinberri eigu, eins og nú þegar er gert í íslenskum lögum.

Þriðji orkupakkinn haggar í engu rétti Íslands til að ákveða með hvaða skilyrðum orkuauðlindir landsins eru nýttar og hvaða orkugjafar eru nýttir hér á landi.

Samstarfsstofnun evrópskra orkueftirlitsaðila, ACER, myndi þrátt fyrir aðild Íslands að stofnuninni ekki hafa neitt að segja um atriði á borð við fyrirkomulag leyfisveitinga og stjórnsýslu hér á landi, og upptaka þriðja orkupakkans hefði í för með sér óverulegar breytingar í því sambandi.

ACER hefur engar valdheimildir gagnvart einkaaðilum heldur eingöngu opinberum eftirlitsaðilum.

Við upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn var um það samið að valdheimildir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í EFTA-ríkjunum yrðu ekki hjá ACER heldur hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).

Heimildir ACER til að taka bindandi ákvarðanir eru að meginstefnu bundnar við ákvæði sem gilda um orkumannvirki sem ná yfir landamæri (t.d. sæstrengi); eðli málsins samkvæmt eiga slíkar valdheimildir ekki við á Íslandi svo lengi sem hér eru engin slík orkumannvirki.

Þriðji orkupakkinn haggar því ekki að það er á forræði Íslands að ákveða hvaða stjórnvald myndi veita leyfi fyrir lagningu sæstrengs og eins hvort íslenska ríkið ætti að vera eigandi að honum.“

Viti einhver meira um stöðu þessa máls innan EES-samstarfsins en Ólafur Jóhannes hlýtur hann að gefa sig fram. Enn sannast hve mikilvægt er að gefa sér góðan tíma til að vega og meta alla þætti EES-mála undir leiðsögn þeirra sem þekkja best til þeirra.