Dagbók: desember 2012

Mánudagur 31. 12. 12 - gamlársdagur - 31.12.2012 16:50

Í dag setti ég pistil hér inn á síðuna í tilefni af ávarpi sem Úlfar Þormóðsson flutti þegar hann tók við rithöfundaverðlaunum ríkisútvarpsins.

Í marga áratugi hef ég lesið áramótahugleiðingu forsætisráðherra Íslands. Aldrei fyrr hefur hún verið rituð af jafnmikilli heift og grein Jóhönnu Sigurðardóttur í Morgunblaðinu í dag. Jóhanna sannar í grein sinni allt sem ég hef sagt um hana sem forsætisráðherra. Hún ráði ekki við að gegna embættinu vegna áráttu hennar til að efna til sundurlyndis og deilna. Jóhanna var kjörin til forystu í Samfylkingunni af því að annars yrði hún ekki þar til friðs. Ein ástæða þess að ríkisstjórn Jóhönnu situr kjörtímabilið á enda er að Jóhanna getur ekki sprengt eigin ríkisstjórn með því að ráðast að þeim sem stjórnar henni. Hún losaði sig hins vegar fyrir ári við tvo ráðherra.

Sérkennilegast er þó að Jóhanna ritar af alkunnri heift í garð Sjálfstæðisflokksins þótt hún sé sjálf að hætta á þingi og fari á hliðarlínuna eftir nokkrar vikur þegar nýr formaður hefur verið kjörinn í Samfylkingunni. Það verður friðsamlegra á alþingi þegar Jóhanna hverfur þaðan. Ekki tekst að afgreiða stjórnarskrárbreytingar á dögunum 27 sem alþingi á eftir að starfa fram að kosningum vegna þvermóðsku Jóhönnu Sigurðardóttur. Hafi einhver haldið að hún vildi ná samkomulagi við sjálfstæðismenn um þetta mál eða eitthvað annað hlýtur sá hinn sami að sjá að sér eftir lestur áramótagreinarinnar í Morgunblaðinu.

Ég þakka samfylgdina á árinu 2012.