Dagbók: desember 2012

Laugardagur 15. 12. 12. - 15.12.2012 23:10

Fyrsta frétt ríkisútvarpsins klukkan 18.00 var að Steingrímur J. Sigfússon hefði fengið 199 af 261 atkvæði í forvali VG í NA-kjördæmi og hlotið fyrsta sæti þar sem hann var einn í kjöri. Fréttin var í norður-kóreustíl. hið eina sem skorti voru lofsamleg ummæli um leiðtogann mikla.

Ég skrifaði um kosningasigur Steingríms J. á Evrópuvaktina eins og má lesa hér.

Svavar Gestsson, fyrrverandi sendiherra og ráðherra Alþýðubandalagsins, segir í Morgunblaðinu í dag að sjálfstæðismenn séu ergilegir og fúlir af því að þeir sitji ekki í ríkisstjórn. Fúllyndi vegna stjórnarinnar er meira annars staðar en í Sjálfstæðisflokknum. Nægir í því sambandi að minna á rifrildi Steingríms J. og Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, í Speglinum og Kastljósi á fimmtudaginn. Steingrímur J. hefur öskrað á marga og sakað þá um virðingarleysi við sig sem ráðherra en ekki á neinn eins og Gylfa.

Menn hafa gleymt því að á sínum tíma töldu sjálfstæðismenn það þjóna flokkslegum hagsmunum sínum að öðru hverju kynntist þjóðin vinstri stjórn og fengi tækifæri til að átta sig á hve illa hún stæði að stjórn mála þjóðarinnar. Vinstri stjórnin sem nú situr, hin hreina og tæra, er líklega verst af þeim öllum og helsti gallinn fyrir hana er að lafa svona lengi. Arfleifðin verður verri því lengur sem hún situr. Það verður auðveldara fyrir sjálfstæðismenn til að benda vinstri vítin til að varast eftir að þessi vandræðastjórn hefur setið í fjögur ár.

Við því var aldrei að búast að Jóhanna Sigurðardóttir mundi segja af sér. Hún virðist enn lifa í þeirri trú að henni takist að ljúka við að eyðileggja stjórnkerfi fiskveiða, tækifæri til frekari virkjana, stjórnarskrána og fullveldi þjóðarinnar. Jóhönnu er sama, hún ætlar að hætta. Hið óskiljanlega er að þingmenn Samfylkingarinnar taki þátt í skemmdarverkunum. Hvað ætla þeir að bjóða í komandi kosningabaráttu? VG býður Steingrím J. sem fékk 199 atkvæði í forvali, var einn í kjöri og segist hafa unnið „afgerandi“ sigur.