Dagbók: desember 2012

Þriðjudagur 11. 12. 12. - 11.12.2012 23:00

Ég sagði frá því hér í dagbókinni í gær að mér hefði komið á óvart að á fundi með mönnum úr utanríkismálanefnd alþingis þann sama dag hefði ég komist að raun um að fyrir lægi greinargerð frá Björgu Thorarensen lagaprófessor um hvaða ráð væru til að breyta stjórnarskránni til að framselja fullveldi þjóðarinnar. Ég hafði vænst þess að sjá þessa greinargerð á vefsíðu laganefndar ESB-viðræðunefndarinnar en þar er sagt frá því að hinn 9. janúar 2012 hafi verið ákveðið að Björg semdi greinargerðina.

Í dag sá ég greinargerðina síðan á vefsíðu utanríkisráðuneytisins um viðræður Íslands og ESB, ekki undir laganefndinni heldur á forsíðu viðræðu-vefsíðunnar og er greinargerðin dags. 22. október 2012, tveimur dögum eftir könnunina á skoðun þjóðarinnar á tillögum stjórnlagaráðs. Hér má nálgast greinargerðina. 

Að þessu sinni verður ekki fjallað um efni greinargerðarinnar. Það vekur hins vegar enn undrun mína að athygli okkar sem utanríkismálanefnd kallaði á fund sinn til að ræða framsalsákvæðið í 111. gr, stjórnlagaráðstillagnanna skuli ekki hafa verið vakin á því að þetta skjal (12 bls.) hafi verið birt – eða var það ekki birt fyrr en núna?

Allt ber þetta vott um hve ruglingslega er staðið að vinnunni við þinglegan frágang á þessum stjórnlagaráðstillögum.  Margt bendir til að vilji ESB-aðildarsinna hnigi að breytingu á einmitt þessu ákvæði stjórnarskrárinnar til að ryðja hindrunum fyrir aðild úr vegi. Þetta ákvæði eitt kallar á miklu meiri og skipulegri umræður um en orðið hafa til þessa. Hvers vegna er staðið að málatilbúnaði á þann hátt sem hér er lýst? Að mörg opinber skjöl liggi fyrir um sama málið.

Flest bendir til að Björg Thorarensen hafi dregið að dagsetja greinargerð sína þar til eftir skoðanakönnunina um stjórnlagaráðstillögurnar. Þar var ekki leitað sérstaklega álits á framsalsmálinu sem er einkennilegt miðað við mikilvægi þess.