Dagbók: desember 2012

Fimmtudagur 06. 12. 12. - 6.12.2012 21:10

Varnaðarorðin sem látin eru falla vegna þess hvernig haldið er á stjórnarskrármálinu á alþingi eru þess eðlis að væri um venjulegt lagafrumvarp að ræða hefði það verið afturkallað. Þetta er hins vegar sjálf stjórnarskráin samt er látið eins og ekkert sé sjálfsagðara en að böðlast áfram. Ég ræddi þetta í pistli sem ég birti hér á síðunni í dag.

Merkilegt var að heyra Árna Þór Sigurðsson (VG), formann utanríkismálanefndar alþingis, lýsa yfir í Spegli fréttastofu ríkisútvarpsins í kvöld að hann teldi koma til greina að gera „formlegt hlé“ á ESB-viðræðunum vegna komandi þingkosningana. Taldi hann að annir stjórnmálamanna yrðu svo miklar að ekki gæfist neitt tóm til að sinna ESB-málinu í aðdraganda kosninganna.

Hingað til hafa menn eins og Árni Þór talað eins og alls ekki ætti að huga að neinu hléi á viðræðunum, þeir hafa að minnsta kosti lagst á móti stefnu Sjálfstæðisflokksins um það. Hún felur jafnframt í sér að viðræðuþráðurinn verði ekki tekinn upp að nýju fyrr en þjóðin hefur veitt umboð til þess í atkvæðagreiðslu.

Árni Þór er með þessu að leitast við að tala sig í mjúkinn hjá þeim kjósendum sem hafa sagt skilið við VG vegna svika flokksins í ESB-málinu. Nú á að bregða upp nýrri grímu fyrir kosningar. Hentistefnustjórnmálamaður eins og Árni Þór notar þá grímu hverju sinni sem hann telur best fallna til að ná settu marki. Hann mun ekki hika við að kaupa völd að kosningum loknum með stuðningi við ESB-aðildarviðræður.