Dagbók: desember 2008

Laugardagur, 27. 12. 08. - 27.12.2008 18:16

 

Páll Magnússon, formannsframbjóðandi í Framsóknarflokknum, heldur áfram að ráðast á Samfylkinguna og saka hana um skort á stefnufestu í Evrópumálum. Hann gerir grín að Kristrúnu Heimisdóttur, aðstoðarmanni utanríkisráðherra, og Ágústi Ólafi Ágústssyni, varformanni Samfylkingarinnar, fyrir að koma fram á völlinn og segja, að víst hafi Samfylkingin mótað sér stefnu í Evrópumálum, þótt Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segi annað, en hann situr í þeirri nefnd flokksins, sem á að móta þessa stefnu.

22. febrúar 2003 sagði ég frá því hér á síðunni, að í aðdraganda þingkosninga þá um vorið hefði ég rætt við Össur Skarphéðinsson um niðurstöður í skoðanakönnun á vegum Stöðvar 2, sem sýndi, að meirihluti væri andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB). Það hefði komið mér á óvart, hve Össur gerði í raun lítið úr Evrópustefnu Samfylkingarinnar. Var hann þeirrar skoðunar, að ekkert þýddi að ræða ESB-aðild nema Sjálfstæðisflokkurinn hefði þar forystu. Þetta hefði verið annar tónn en áður hjá Össuri og taldi ég líklegast, að einhverjir ímyndarsérfræðingar hefðu sagt Össuri og Samfylkingunni, að til einskis væri að setja ESB-aðild á oddinn í kosningabaráttunni.  Ekki væri aðeins, að Össur talaði á annan veg um ESB og Ísland en hann hefði gert. Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, hefði einnig blásið málið út af borðinu í setningarræðu sinni á flokksþingi framsóknarmanna föstudaginn 21. febrúar, 2003.

Nú fimm árum síðar virðast forystumenn í Samfylkingu og Framsóknarflokki enn vera komnir í hár saman vegna Evrópumála og enn bíða þeir eftir því, hvað Sjálfstæðisflokkurinn segir. Páll Magnússon segir. að hafi Framsóknarflokkurinn verið „hækja“ Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn sé Samfylkingin „skækja“ Sjálfstæðsflokksins í núverandi ríkisstjórn.

Þetta orðbragð Páls er líklega til marks um nýja tíma í stjórnmálum. Ég tel það ekki til neinna bóta og ekki auðvelda neinum að gera upp hug sinn.