Dagbók: desember 2008

Sunnudagur, 07. 12. 08. - 7.12.2008 19:40

Herra Karl Sigurbjörnsson biskup vígði Guðríðarkirkju í Grafarholti klukkan 14.00 í dag, sóknarpresturinn dr. Sigríður Guðmarsdóttir þjónaði fyrir altari. Mikið fjölmenni var við hátíðlega athöfnina og síðan í kirkjukaffi í Gullhömrum, þar sem Niels Árni Lund, formaður sóknarnefndar, gerði grein fyrir byggingu kirkjunnar, sem aðeins tók 17 mánuði. Með því að kenna kirkjuna við Guðríði Þorbjarnardóttur er kirkja í fyrsta sinn kvenkennd hjá þjóðkirkjunni. Kaþólska kirkjan hefur kennt kirkjur hér við Maríu guðsmóður.

Ég fagna niðurstöðu vinstri/grænna í dag um, að efnt skuli til tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu til að ákvarða stefnu þjóðarinnar gagnvart Evrópusambandinu. Þessa leið nefndi ég í samtali við Sigmund Erni í Mannamáli fyrr á árinu.

Össur Skarphéðinsson oftúlkaði Evrópustefnu vinstri/grænna sér í hag í Mannamáli Sigmundar Ernis í kvöld. Samtalið við Össur kom til sögunnar eftir opinberar kvartanir um, að enginn í Samfylkingunni vildi ræða við Sigmund Erni. Viðtalið var kynnt á þann veg, að Sigmundur Ernir hefði fengið fjölmargar spurningar frá hlustendum til að leggja fyrir Össur. Í þættinum komst Sigmundur Ernir hins vegar varla að, því að Össur talaði svo að segja samfleytt og gjarnan um sjálfan sig í þriðju persónu.