6.7.2008 21:07

Sunnudagur, 06. 07. 08.

Á visir.is í dag má lesa:

„Þá segir Jóhannes (í Bónus)  í samtali við Vísi að Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hljóti að vera knúnir til að segja af sér embættum sínum. Það sé forkastanlegt hvernig þeir hafi hagað sér. „Svo eru þessir menn að tala um að það þurfi að koma upp vopnuðu liði. Framkoma þessara manna við fólkið í landinu er á þann veg að það getur orðið til þess að fólk grípi til vopna gagnvart þeim. Þannig að það er kannski ekki skrítið að þeir vilji efla vopnaburð," segir Jóhannes. “

Hver var að tala um vopnað lið? Hvorki Haraldur Johannessen né ég. Þennan hugarburð ber Jóhannes á borð, um leið og hann lætur í veðri vaka, að við Haraldur verðum beittir vopnavaldi af almenningi - væntanlega vegna Baugsmálsins. Er líklega einsdæmi, að áhrifamaður í viðskiptalífinu, og þótt víðar væri leitað, skuli tala á þennan veg. Fyrir síðustu þingkosningar notaði Jóhannes auð sinn til að auglýsa andúð sína á mér með hvatningu um að strika nafn mitt af framboðslista sjálfstæðismanna í Reykjavík suður. Nú telur hann sig tala í nafni almennings um vopnaburð gegn okkur ríkislögreglustjóra.

Það sýnir líklega, hve mikið mark menn taka á hótun Jóhannesar, að þessi hún þykir ekki fréttnæm utan þessa vefmiðils Baugs. Á hinn bóginn er víða vitnað til heitinga Árna Johnsens, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í garð réttarvörslukerfisins í tilefni af Baugsmálinu, en þær birtust í dag í Morgunblaðinu - hótar hann þó ekki að sýna neinum í tvo heimana með vopnavaldi.

Ég lýsi undrun minni og harma dæmalausan málflutning þeirra beggja, Jóhannesar og Árna.